Hagvöxtur á ársgrundvelli á evrusvæðinu er 2,1%. Á öðrum ársfjórðungi ársins 2017 var 0,6% hagvöxtur á evrusvæðinu samkvæmt opinberum gögnum Evrópusambandsins. Samkvæmt endurskoðuðum tölum hagstofu Evrópu, var hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 0,5% á evrusvæðinu.

Evrópusambandið birti sömuleiðis tölur yfir atvinnuleysi. Samkvæmt þeim tölum hefur atvinnuleysi ekki mælst minna á evrusvæðinu frá árinu 2009. Í frétt BBC segir að það sé til marks um betra efnahagsástand í álfunni, sem fór mjög illa út úr efnahagsþrengingunum í kjölfar efnahagsáfallsins árið 2008.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður gert skil, voru hagvaxtartölur stærstu ríkja álfunnar umfram væntingar á öðrum ársfjórðungi. Til að mynda var hagvöxtur á Spáni, 0,9% og hefur efnahagurinn á Spáni aftur náð fyrri stærð og fyrir efnahagsáfallið. 0,5% hagvöxtur var á Frakklandi á öðrum ársfjórðungi ársins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hækkaði einnig hagvaxtarspá sína fyrir stærstu ríki Evrópu í síðustu viku.

Evrópski seðlabankinn hyggst nú herða á peningastefnu sinni eftir mörg ár af örvunaraðgerðum og lágum stýrivöxtum. Ferlið byrjar næsta haust, þrátt fyrir að verðbólga í evruríkjunum 19 sé enn lág, eða 1,3%, og er talsvert undir 2% verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans. Lág verðbólga er oft til marks um slakt ástand í efnahagsmálum.