Ferðaþjónustuaðilar hafa verið með áhyggjur af sterku gengi krónunnar, þrátt fyrir að hótel séu þéttbókuð og erlendum ferðamönnum hafi fjölgað um 59,5% það sem af er ári að því er segir á vef Túrista .

Jafnframt hafa þeir áhyggjur af nýju tíðindunum að slá þurfti af hluta þeirra framkvæmda í samgönguáætlun sem ekki var búið að fjármagna. Þá sérstaklega höfðu menn áhyggjur af frestun á uppbyggingu Dettifossvegar.

Þjóðverjar viðkvæmari

Ása Torfadóttir skrifstofustjóri hjá Snæland Travel segir krónuna ekki mega styrkjast meira. ,,Það fer eftir krónunni," segir Ása spurð út í framhaldið.

,,Þetta hefur mikil áhrif á okkur, mjög mikil. Það er verið að afbóka meira en á sama tíma og áður en mismunandi eftir mörkuðum.

Þjóðverjar eru til að mynda viðkvæmari fyrir verðhækkunum. Jafnframt er erfiðara að selja ferðir fyrir 2018 því það er erfitt að verðleggja fram í tímann þegar gengið er svona rokkandi.

Það er eitt að vera með hátt gengi en annað að búa við þessar sveiflur. Það er erfitt að segja við kúnnann að verðið gæti breyst þegar frá líður."

Afkoman endurspeglar ekki aukninguna

Bjarni Hrafn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Terra nova segist ekki enn þá sjá breytingar á eftirspurn eftir Íslandsferðum.

,,...en maður sér ákveðna þróun í þá átt að það er minni sala í lengri og dýrari ferðum en aukning í þeim sem eru styttri og ódýrari," segir Bjarni sem segist finna fyrir áhrifum sterks gengis á starfsemi fyrirtækisins.

,, Árið í fyrra var frábært ef þú telur fjölda ferðamanna en þessi sterka króna og breytingar á henni á skömmum tíma í fyrra varð til þess að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja endurspeglar ekki þessa söluaukningu.

Menn eru mjög uggandi um framhaldið. Ef krónan heldur áfram að styrkjast og er flökktandi þá mun það hafa þau áhrif að afkoma íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja verður afleit.

Flest fyrirtækin eru að verðleggja sína þjónustu í erlendri mynt, oftast í evru. Styrking krónunnar útvatnar tekjurnar því framlegðin í þessum geira er ekki há og stórar sveiflur á genginu éta hana upp."