*

þriðjudagur, 24. október 2017
Erlent 10. mars 2017 16:37

Auknar líkur á stýrivaxtahækkun

Með meiri fjölgun starfa í Bandaríkjunum í febrúar en væntingar voru um hafa líkurnar á stýrivaxtahækkun hækkað mikið.

Ritstjórn

Í febrúar bættust við 235 þúsund störf í Bandaríkjunum samkvæmt nýjustu tölum frá hagstofu landsins. Var það umfram væntingar hagfræðinga sem greiningaraðilar telja auki líkur á að seðlabanki landsins hækki stýrivexti í mánuðinum.

Fór atvinnuleysið í landinu niður í 4,7% en það hafði verið í 4,8% í janúarmánuði.

Launin hækkuðu um 6 sent

Jafnframt hækkuðu laun að meðaltali um 6 bandarísk sent, og eru þau nú í 26,09 dali á tímann, eða sem jafngildir 2.835,72 krónum, en hækkunin í janúar hafði numið einungis 3 sentum.

Í þessum fyrsta heila mánuði í forsetatíð Donal Trump höfðu hagfræðingar sem Bloomberg fréttastofan hafði rætt við talið að störfum myndi fjölga um 200 þúsund.

Flest störf bættust við í menntageiranum, framleiðslu, heilbrigðisþjónustu og námuvinnslu, auk þess sem störf í byggingariðnaðinum fjölgaði hratt.

Jafnframt endurmat hagstofan mat sitt á störfum sem urðu til í desember og janúar og telur hún nú að um 9 þúsund fleiri störf hafi orðið til í landinu á þessum tíma.

Framvirkir samningar sem veðja á stýrivaxtahækkun hækkuðu líkurnar á að stýrivaxtahækkun upp í 90% frá því að vera 25% fyrir birtingu nýju talnanna.

Laun hækkað um 2,8% yfir árið

Aðrar hagtölur sem birtust fyrr í vikunni frá ADP og Moody´s Analytics sýna að einkageirinn hafi bætt við sig 298 þúsund störfum í febrúar, en væntingar höfðu verið um að mælingin sýndi fjölgun um 189 þúsund störf.

Á síðustu 12 mánuðum hefur laun í landinu hækkað um 2,8%.