Söluaukning á rafmagns- og tengiltvinnbílum milli áranna var 15,8% og eru þeir 21% af heildarsölu ársins 2018. Með auknu úrvali orkugjafa hefur þar af leiðandi dregið úr sölu bensín og dísil fólskbíla. Heldur meiri samdráttur hefur verið í sölu dísil fólksbíla en bensín fólksbíla en var hlutfall dísil fólksbíla í heildarsölu ársins 2018 37,9% samanborið við 41,7% af heildarsölu fólksbíla árið 2017. Samdráttur í bensín fólksbílum var 1,8% milli áranna eða úr 43,2% árið 2017 í 41,4% árið 2018. Heildarfjöldi seldra fólksbíla árið 2018 var 17.974 en gerir það 15,6% minni sölu en á árinu 2017. Bílgreinasambandið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Þegar við horfum til heildarsölu bílaleigubíla á árinu má sjá að skráningar í ár voru 6.680 fólksbílar samanborið við 8.196 fólksbíla árið 2017. Er hér um töluverðan samdrátt að ræða eða 18,5%. Sala til almennings á árinu voru 11.084 fólksbílar en er það samdráttur upp á 13,9% milli áranna 2018 og 2017. Árið 2018 var þriðja stærsta ef horft er til baka 10 ár í bílasölu og nokkuð sambærilegt árinu 2016 í fjölda seldra nýrra fólksbíla. Ef horft er til ársins 2016 þá er munur ársins í árs einungus 2,8% minni í sölu fólksbíla. Þegar þessi ár eru borin saman má sjá að bílaleigur eru einna helst að draga úr kaupum fólksbíla milli áranna 2016 og 2018 eða um 18,1% en almenningur er aftur á móti auka kaup á nýjum fólksbílum um 9%.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að margir þættir hafi haft áhrif á sölu ársins.

"Síðari hluti ársins einkenndist af mikilli óvissu þegar beðið var eftir niðurstöðu varðandi breytinga á vörugjöldum ökutækja vegna nýrrar aðferðar við mælinga á útblæstri bíla. Bílar fóru að koma til landsins frá og með 1. september með ný mæligildi útblásturs sem leiddi til hækkunar á vörugjöldum en breyting á lögum tók ekki gildi fyrr en í lok nóvember til að koma til móts við þær hækkanir sem stöfuðu af þessari nýju mæliaðferð og þar af leiðandi hækkun á vörugjöldum. Á sama tíma fór íslenska krónan að veikjast sem hafði svo aftur áhrif til hækkunar á verð bíla. Þrátt fyrir mjög góða sölu í umhverfisvænum bílum síðustu ár eru innflytjendur ökutækja að sjá fram á að eftirspurn verði umfram framboð á árinu 2019. Má því gera ráð fyrir að einstaklingar bíði með endurnýjun þar til hægt verður að bregðast við þeirri eftirspurn".

Bílgreinasambandið spáir því að sala 2019 verði um 15.500 fólksbílar. Þetta er um 13,8% samdráttur frá árinu sem er að líða. Munu bílaleigur hafa þar áframhaldandi áhrif á samdrátt en nú um áramót var afnuminn afsláttur af vörugjöldum bílaleigubíla. Hins vegar teljum við að sala til einstaklinga muni vera jákvæð. Helstu ástæðu þess má rekja til breytinga á vörugjöldunum en um áramót verður fallið frá vörugjaldaflokkum og línuleg álagning vörugjalda tekin upp. Þetta leiðir af sér að bílar sem voru í neðri mörkum hvers vörugjaldaflokks fá nú lægri vörugjöld en áður.

Nýverið var lögð fram metnaðarfull aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og markaði ríkisstjórnin þar stefnu með því að draga verulega úr losun koltvísýrings frá samgöngum með því að stefna að því að nýskráningar dísilbíla verði almennt óheimilar eftir árið 2030. Bílgreinasambandið styður fyrrgreinda stefnu ríkisstjórnarinnar en hefur lagt áherslu á að tryggja þarf innviði til að takast á við þær breytingar sem þörf er á hér á landi og á sama tíma að stjórnvöld styðji aðgerðir sem aðstoða við að ná þessu markmiði. "María Jóna segir að sala til bílaleiga er og hefur verið í kringum helmingur af sölu fólksbíla á hverju ári og hafa því stutt öra endurnýjun ökutækja. Hins vegar hefur hlutfall bílaleiga farið minnkandi í heildarsölunni síðastliðin tvö ár og er rétt tæplega 40%. Bílaleigur hafa náð miklum árangri síðastliðin 5 ár í að draga úr útblæstri bílaflotans með endurnýjun. Mikilvægt er því að halda þessari þróun áfram til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið af ríkisstjórninni þegar kemur að loftslagsmálum".

"Átak þarf í að endurnýja bílaflotann og er það gert með því að tryggja innflutning nýrra og minna mengandi ökutækja inn í landið. Endurgreiðsla fyrir förgun eldri bíla hefur ekki breyst í áraraðir þrátt fyrir tal um breytingar þar á. Hækkun á endurgreiðslu er hvati og greiðsla sem hægt er að nýta við kaup á nýjum bíl sem skilar sér aftur inn í ríkissjóð í formi vörugjalda og virðisaukaskatts og því löngu tímabært að endurskoða þá krónutölu sem fæst við afhendingu bíls til förgunar," segir María Jóna.