Hópur fólks hefur tekið Auroracoin yfir af huldumanninum sem stofnaði rafmyntina. Undirbúningur að aðlögun Auroracoin fyrir íslenskt samfélag hefur staðið yfir í tvö ár. Kauphöll með Auroracoin, þar sem hægt verður að kaupa og selja rafmyntina með millifærslum inn og út af íslenskum bankareikningum, mun opna á þriðjudaginn gangi áætlanir eftir.

Auroracoin fór í loftið vorið 2014 og gátu þá allir Íslendingar sótt tiltekið magn rafmyntarinnar. Lítið hefur farið fyrir umræðu um Auroracoin síðan þá, en undanfarna daga hafa auglýsingar með merki Auroracoin birst á strætóskýlum í Reykjavík.

Engar aðrar upplýsingar koma fram í auglýsingunum, en í samtali við Viðskiptablaðið segir einn forsvarsmanna verkefnisins, Hermann I. Finnbjörnsson, að um sé að ræða vitundarvakningu.

Félagasamtök stofnuð

„Við tókum við verkefninu á sínum tíma af þessum huldumanni sem enginn veit hver er. Við stofnuðum félagasamtök utan um verkefnið, og út frá félagasamtökunum er síðan búinn að spretta upp stór hópur forritara og stuðningsmanna erlendis,“ segir Hermann.

„Við erum ekki búin að vera að auglýsa okkur, bara klára allt sem þarf að klára til þess að það sé hægt að móta þetta, til að það sé hægt að skipta þessu, kaupa þetta og selja þetta.“

Var í sjokki yfir kerfinu

Hermann segir að í hópi aðstandenda verkefnisins séu hagfræðingar, verkfræðingar og forritarar, en á vefsíðu Auroracoin er í það minnsta hluti hópsins nafngreindur. Hermann segir að allir hafi gengið í gegnum hrunið og að flestir í hópnum hafi síðan farið að kynna sér peningakerfið.

„Eftir nokkurra daga rannsókn þá sat maður í sjokki yfir að vita hvernig peningakerfið virkar. Svo þegar Auroracoin kom á sínum tíma fylltist maður áhuga og skoðaði það verkefni,“ segir Hermann.

„Þetta er gott kerfi. Þetta er ekki hið fullkomna kerfi en þetta er hundrað sinnum betra en núverandi kerfi.“

Kóðinn uppfærður

Stefnt er að því að opna Auroracoin-kauphöllina á þriðjudaginn, sem eins og áður segir er sérstaklega hönnuð með Ísland í huga. Hermann segir þó að kauphöllin hafi ekki verið þróuð í samstarfi við íslenska banka.

Kauphöllin mun taka 1 prósent þóknun fyrir kaup og sölu á Auroracoin. Hermann segir að þóknanatekjunum sé ætlað að mæta rekstrarkostnaði. Vegna gríðarlegra öryggisráðstafana sé rekstrarkostnaður við myntina nokkuð hár. Til að mynda verði myntin keyrð á sérstökum netþjónum.

Á sunnudaginn verður kóðaðnum fyrir myntina breytt þannig að Auroracoin-keðjan (e. blockchain) keyri á fimm mismunandi algrímum. Hermann segir það þýða að ef hakkara tekst að ráðast á keðjuna myndi það ekki valda neinum skaða.

Hagnast ekki persónulega til að byrja með

Spurður hvort forsvarsmenn hópsins muni hafa persónulegan ágóða af verkefninu segir Hermann: „Nei, ekki fyrstu þrjú, fjögur árin. Ef þetta myndi taka af stað, kannski. En tíminn sem hefur farið í þetta hingað til – ég hugsa að peningalega séð munum við aldrei koma út í gróða af þessu.“

Viðskipti með Auroracoin fara nú einkum fram á sérhæfðum vefsíðum. Samkvæmt vefsíðunni Bter.com hefur virði Auroracoin gagnvart Bitcoin þrefaldast frá því um áramótin.

Standa fyrir fræðslu

Hermann segir að hópurinn hafi þriggja ára plan, en segist ekki geta upplýst nákvæmlega um næstu skref. Þau verði kynnt hægt og rólega. Hópurinn hyggst standa fyrir fræðslu um Auroracoin-kerfið og hvernig eðli þess er í samanburði við íslenska bankakerfið.

„Við erum að sýna fram á annan valkost, við erum að sýna fram á að það er hægt að stofna nýtt hagkerfi með litlum fyrirvara. Ef fólk vill nota þetta er það frábært, en ef enginn hefur áhuga á þessu myndi þetta bara deyja út.“