Kanslari Austurríkis, Christian Kern, hefur sagt að hann vilji biðja Evrópusambandið að leyfa austurrískum fyrirtækjum að láta landsmenn ganga fyrir öðrum umsækjendum.

Þetta var loforð kanslarans þegar hann birti 10 ára efnahagsplan sitt sem reynir að einblína á sköpun starfa.

„Þessi austur Evrópuríki eru að flytja út sitt atvinnuleysi til Austurríkis,“ segir kanslarinn sem kemur úr flokki sósíaldemókrata, í borginni Wels, þar sem Frelsisflokkurinn ræður ríkjum.

Frelsisflokkurinn stærstur í könnunum

Flokknum hefur margsinnis verið líkt við öfgaflokk en ótti fólks við atvinnuleysi og áhyggjur af innflutningi fólks hafa leitt til þess að flokkurinn nýtur nú mest fylgis í skoðanakönnunum.

Loforðið er talið vera tilraun kanslarans til að ná aftur fylgi til sósíaldemókrataflokksins sem verið hefur, ásamt hinum miðhægrisinnaða Þjóðarflokki, ráðandi í stjórnmálum landsins síðan lýðveldi var stofnað.

Nú nýtur flokkurinn einungis um 27% fylgis, en í forsetakosningum í landinu á síðasta ári komust hvorugir frambjóðendur hefðbundnu valdaflokkanna áfram í aðra umferð. Þingkosningar verða í landinu í síðasta lagi árið 2018.