160 milljarða dala Vogunarsjóðurinn Pure Alpha í rekstri bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins Bridgewater Associates, sem Ray Dalio stofnaði 1975, hagnaðist um 14,6% á síðasta ári.

Er það mikil aukning frá 1,2% hagnaði árið 2017, og jafnframt töluvert önnur niðurstaða en margir aðrir fjárfestar sáu eftir árið sem einkenndist af miklu flökti og miklum lækkunum undir lok ársins.

Að því er FT segir frá tapaði meðalvogunarsjóðurinn á síðasta ári 2%, og margir sjóðir sem líkt og Pure Alpha beita þjóðhagfræðilegri nálgun töpuðu meira en 4% á árinu.

Í viðtali við fjölmiðilinn í október síðastliðnum sagði Bob Prince, aðalfjárfestingarstjóri vogunarsjóðsins að efnahagur eftirhrunsáranna væri nú í hámarki þar sem seðlabankar væru að draga úr örvun hagkerfisins.

„Við erum klárlega að snúa frá slaka í peningastefnunni til aukins aðhalds,“ var haft eftir honum. „Mikil bjartsýni um aukin vöxt arðsemi hafa haft áhrif á arðsemi hlutabréfa. En nú erum við á þeim punkti sem efnahagslífið fer að fara úr því að vera mjög heitt í að verða í meðallagi.“

Þó sjóðurinn sé þekktur fyrir ógagnsæja fjárfestingarstefnu sem og hann hafi nýtt sér sífellt aukna sjálfvirkni, er hann talinn einblína á að reyna að græða á almennri efnahagsþróun, ótengt því hvernig alþjóðamarkaðir eru að þróast.

Sjóðurinn hefur neitað að segja frá því hvað olli þessum mikla árangri á síðasta ári, en fyrr á síðasta ári er ljóst að hann var að veðja gegn hlutabréfavirði í Evrópu, sem gæti gefið innsýn inn í fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um voru markaðir í Bandaríkjunum sérstaklega á miklu flökti undir lok ársins. Einnig hafa komið misvísandi vísbendingar frá Seðlabankanum um hve hratt haldið verður áfram að herða peningastefnuna, eða hvort slakað verði jafnvel á henni á ný.