Hugmyndir japanska seðlabankans um að draga úr magnbundinni íhlutun (quantitative easing) skóku skuldabréfamarkaði um allan heim í gær. Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa hækkaði um 6 punkta (0,06%) í 2,89%, í Bretlandi hækkuðu samskonar bréf um 5 punkta í 1,23% og í Þýskalandi um 4 punkta í 0,37%, samkvæmt frétt Financial Times .

Peningastefnunefnd japanska seðlabankans hittist næst þann 30. júlí næstkomandi. Skuldabréfavöxtum á heimsvísu hefur fyrst og fremst verið haldið niðri af seðlabönkum Japans og Evrópu, á meðan áhrifamesti seðlabanki heims, hinn bandaríski, hefur verið að hækka vexti.

Evrópski seðlabankinn gaf hinsvegar nýlega út að hann hygðist hætta skuldabréfakaupum sínum síðar á þessu ári. Seðlabanki Japans er því sá eini þeirra þriggja sem nú heldur vöxtum niðri, og markaðir fylgjast því náið með honum, og vangaveltur sem þessar geta haft mikil áhrif.

Krishna Guha, varaformaður ráðgjafafyrirtækisins Evercore ISI, sagði að í ljósi mikilvægis japanskra fjárfesta á heimsmarkaði með skuldabréf, hefði hærra vaxtamarkmið japanska seðlabankans töluverð áhrif til hækkunar ávöxtunarkröfu, sem þýddi brattari vaxtaferil.

Samanlagt gæti þetta þýtt að í árslok væru stóru seðlabankarnir þrír farnir að draga úr lausafé á mörkuðum í fyrsta sinn síðan í fjármálakrísunni 2008.