Frétt Nútímans um að Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafi hafnað tilboði EA Sports um að íslenska landsliðið yrði með í tölvuleiknum FIFA 17, sem kemur út 29. september, vöktu mikil viðbrögð. Nú hefur KSÍ hafið viðræður við EA Sports á nýjan leik og þá um þátttöku íslensku landsliðanna í FIFA 18.

Spurður hvort frumkvæðið að viðræðunum núna hafi komið frá KSÍ eða EA Sports svarar Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ: „Ég fékk tölvupóst í morgun en vil svo sem ekki segja neitt meira um það. Stóra málið er að við höfum hafið viðræður í dag eftir storminn í gær. Við höfum einsett okkur að ræða á uppbyggilegan hátt um þátttöku Íslands í FIFA 18, sem kemur út á næsta ári. Við óskuðum eftir því að auk karlalandsliðsins fengi íslenska kvennalandsliði einnig að vera með og höfum fengið jákvæð viðbrögð. Viðræðurnar núna eru á vingjarnlegum nótum og málin rædd á eðlilegan og heilbrigðan hátt."

Núna höfum við rúman tíma

Eftir góðan árangur íslenska karlalandsliðsins á EM í sumar hafði EA Sports samband við KSÍ og óskaði eftir því að fá að hafa íslenska landsliði í FIFA 17. Komið hefur fram að EA Sports hafi verið reiðubúið að greiða KSÍ 15 þúsund dollara fyrir eða ríflega 1,7 milljón króna. Geir segir að þessar viðræður í sumar hafi farið fram í miklu flýti og undir mikill pressu.

„Við nefndum engar tölur í þeim viðræðum enda gafst okkur ekki færi á því í raun. Það var bara ekki nógu vel staðið að þessu þá. Núna höfum við rúman tíma. Við erum ekki byrjaðir að ræða fjárhagslegu hliðina enda snýst þetta ekki bara um peninga heldur líka þátttöku kvennaliðsins í leiknum. Markmið beggja aðila er að bæði liðin verði með í næsta leik en ég get sagt hvenær við klárum þetta."