Pylsuvagn Bæjarins Bestu sem Viðskiptablaðið sagði frá í lok júlí í fyrra hefði verið fluttur um set er kominn aftur á sinn stað við Tryggvagötu. Fyrir flutningana í fyrra hafði vagninn staðið í hartnær 80 ár á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis, beint á móti gömlu höfuðstöðvum Eimskipafélagsins, þar sem nú er hótel 1919.

Vegna framkvæmda við spennistöð á reitnum var hann fluttur um set fyrir rúmu ári síðan og hefur hann þar til nú staðið við hlið hótelsins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma virtist flutningurinn ekki hafa haft teljandi áhrif á vinsældir pylsuvagnsins sem margir ferðamenn telja einn af þeim nauðsynlegu áningarstöðum sem heimsækja þurfi hér á landi.

Dagur B. Eggertsson segir frá því á Twittersíðu sinni að vagninn hefur nú aftur verið færður á sinn upprunalega stað eða því sem næst. Upphaflega hafði verið stefnt að því að vagninn færi aftur á sinn stað fyrir síðustu jól en ekki varð af því fyrr en nú.

Pylsuvagn Bæjarins bestu öðlaðist heimsfrægð þegar Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk sér pylsu í vagninum árið 2004. Einnig hafa James Hetfield, söngvari Metallica og leikarinn Charlie Sheen fengið sér pylsu í vagninum.