Matsfyrirtækið Reitun hefur breytt lánshæfishorfum Kópavogs úr stöðugum í neikvæðar vegna nýlegrar samþykktar bæjarstjórnar um kaup á 30 til 40 félagslegum íbúðum og byggingu tveggja fjölbýlishúsa. Í matinu segir að verði áformin að verulegi muni lánshæfi Kópavogs versna vegna aukinnar skuldsetningar í viðkvæmri stöðu, óstöðugleika og minni fyrirsjáanleika.

Það var minnihluti bæjarstjórnar Kópavogs ásamt Gunnari I. Birgissyni, fyrrverandi bæjarstjóra, sem samþykkti á fundi bæjarstjórnar á þriðjudagskvöld að greiða tillögu þessa efnis. Kostnaðurinn nemur í kringum þremur milljörðum króna. Minnihluti bæjarstjórnar Kópavogs samanstendur af fulltrúum Samfylkingar, VG og Næstbesta flokksins.

Lánskjör bæjarins versna

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir í yfirlýsingu breytingu á lánshæfismatinu valda sér miklum vonbrigðum. Hún sé þrátt fyrir það í takt við það sem hann óttaðist enda geri það skuldastöðu bæjarins verri en áður.

„Ég hef í starfi mínu sem bæjarstjóri Kópavogs lagt mikla áherslu á styrka og stöðuga fjármálastjórn og í júlí á síðasta ári hækkaði Reitun lánshæfismat Kópavogs úr B í B+ með stöðugum horfum. Nú hefur þeim horfum hins vegar verið breytt í neikvæðar vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs. Samþykkt bæjarstjórnar er því farin að skaða bæjarsjóð. Kópavogsbær þarf á næstu vikum að leita á markað vegna endurfjármögnunar á árinu 2014. Lánshæfismatið og neikvæðar horfur kunna því miður að leiða til verri lánskjara Kópavogsbæjar.“