Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að mótmæla lokun hraðbanka Landsbankans í Hrísey. Bæjarstjórnin segir að lokunin muni hafa slæmar afleiðingar fyrir íbúa eyjunnar og ferðamenn.

Hraðbankinn fylgdi með þegar Sparisjóður Norðurlands sameinaðist Landsbankanum í september.

Í bókun bæjarstjórnar Akureyrar segir m.a.:

„Bæjarstjórn Akureyrarbæjar mótmælir harðlega áformum Landsbankans um að loka hraðbanka sínum í Hrísey. Ef af þessum áformum verður þurfa íbúar að sækja alla sína bankaþjónustu til lands og þá er bent á að ferðamenn hafa þá ekkert aðgengi að bankaþjónustu sem er afar bagalegt með auknum ferðamannastraumi. Bankaþjónusta er ein af grunnstoðum hvers samfélags og er þessi ákvörðun því til þess eins fallin að veikja byggð í Hrísey en byggð á þar í vök að verjast eins og fram hefur komið.“