Ragnar Jónasson rithöfundur hefur gert tveggja bóka samning við bandaríska forlagið St. Martin’s Press, en verk bæði Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur koma út undir merkjum þess vestan hafs.

Um er að ræða glæpasögu Ragnars Snjóblindu og aðra bók úr Siglufjarðarseríu hans en hins vegar á eftir að ákveða hver þeirra verður næst fyrir valinu, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fyrr í vor var Snjóblinda mest selda bókin á Kindle hjá Amazon í Bretlandi og Independent sagði um liðna helgi að í henni birtist „heillandi leiftur af myrkum og hrikalega ógnvekjandi sviðum mannlífsins.“ .“  Þá greindi Fréttablaðið nýlega frá því að hann hefði einnig samið um útgáfu á bókum sínum í Póllandi, auk þess sem þær hafa komið út á þýsku.

Í október er væntanleg glæpasaga frá Ragnari þar sem hann fetar sig inn á nýjar slóðir, gefur Siglufirði frí í bili, og kynnir til sögunnar nýja aðalpersónu.