Franska sjónvarpsstöðin France 5 sýndi á sunnudagskvöldið heimildarmynd um vörusvik Kínverja, sem kaupa þorsk af Norðmönnum, flytja til Kína og síðan aftur til Evrópu eftir að vera búnir að sprauta í hann vatni, fosfati og fleiri efnum.

Sýnd eru í þættinum myndskeið sem tekin voru með falinni myndavél, þar sem sést að vatni er sprautað með vélum í fiska á færiböndum. Þá er talað við fulltrúa Kína á sýningarbás á sjávarútvegssýningunni Seafood Expo í Brussel. Kínverjarnir segja óhikað frá því að þeir kaupi ódýran þorsk og sprauti vatni í hann til að hann verði umfangsmeiri. Einnig viðurkenna þeir fúslega að efnum sé sprautað í fiskinn til að hann verði hvítari. Þar á meðal er fosfat og aukefnið E-451, sem er pentakalíumtrífosfat.

Þátturinn hefur vakið sterk viðbrögð í Frakklandi og norskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið.

„Vegna þeirra viðbragða sem þessi þáttur hefur fengið þurfum við að velta því fyrir okkur hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir álit manna á norskum þorski,“ segir Paal Frisvold, fulltrúi Norska sjávarafurðaráðsins (Norges Sjømatsråd) í Frakklandi, í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Franskir neytendur láta sig mjög varða gæðin á þeim fiski sem þeir snæða, og við höfum séð að neytendur vilja greinargóðar upplýsingar um vöruna.“

Sjá má umfjöllun NRK hér, og umfjöllun Nettavisen er hér . Hjá NRK er einnig að finna tengil í franska þáttinn á Youtube.