Fyrrverandi sölumaður hjá Eirbergi var í Héraðsdómi Reykjavíkur síðasta dag apríl dæmdur til að greiða fyrirtækinu tíu milljónir króna í bætur. Ástæðan fyrir bótunum er brot mannsins gegn trúnaðarskyldum í vinnusambandi en hann sannfærði viðskiptavin Eirbergs, til þriggja áratuga, um að hefja viðskiptasamband við nýstofnað félag sitt.

Maðurinn hóf störf hjá Eirbergi árið 2005 allt þar til honum var sagt upp í október 2015. Uppsagnarfrestur rann sitt skeið í janúar 2016. Í nóvember 2015, meðan maðurinn vann uppsagnarfrest sinn, stofnaði hann einkahlutafélagið Títus. Samhliða voru hann og fyrirsvarsmaður Guldmann, sem meðal annars framleiðir lyftur fyrir farlama sjúklinga, í samskiptum um að hið nýja félag tæki yfir sölu vara Guldmann hér á landi. Varð það síðan úr.

Þegar það kom upp úr dúrnum rifti Eirberg ráðningarsamningi við manninn og áskyldi sér rétt til skaðabóta úr hendi hans. Samkvæmt mati dómkvadds matsmanns nam tjón Eirbergs vegna tapaðrar framlegðar af vörum Guldmann 29,4 milljónum króna. Þá sat það uppi með tjón vegna óendurkræfs kostnaðar af kaupum á varahlutum, tvær milljónir króna, og að endingu var höfð uppi krafa um endurgreiðslu launa í uppsagnarfresti og kostnaðar af markaðssetningar hér á landi. Alls hljóðaði krafan því upp á tæpar 34 milljónir.

Í ráðningarsamningi mannsins var að finna ákvæði um bann við ráðningu til samkeppnisatvinnu. Að mati dómsins var það „óljóst og klúðurslega orðað“ og áætlað að bannið gilti í sex mánuði. Þrátt fyrir það var það mat dómsins að manninum hefði mátt vera ljóst að hann væri bundinn trúnaði við Eirberg á meðan ráðningarsamband þeirra varði.

„Af óumdeildum atvikum málsins er ljóst að stefndi hafði hafið undirbúning samkeppnisatvinnurekstrar löngu áður en ráðningarsambandi hans og stefnanda lauk, er hann stofnaði Títus í nóvember 2015. Þá er frásögn stefnda um samskipti sín við hið danska fyrirtæki Guldmann með nokkrum ólíkindablæ,“ segir í dómnum.

Að mati dómsins var ekki hægt að leggja til grundvallar að fullu að tjón Eirbergs hefði mátt rekja til saknæmrar háttsemi mannsins. Því var mat hins dómkvadda matsmanns ekki lagt til grundvallar við ákvörðun bóta heldur þær dæmdar að álitum. Þótti hæfileg upphæð vera tíu milljónir króna auk vaxta frá 1. febrúar 2016. Auk þess var maðurinn dæmdur til að greiða Eirbergi málskostnað en sú upphæð var í hærri kantinum eða sjö milljónir króna.