Sveitarfélagið Árborg skilaði afgangi frá rekstri upp á tæplega 108 milljónir króna árið 2016 borið saman við 21 milljóna króna halla árið 2015, miðað við samstæðu sveitarfélagsins (A- og B-hluta). Áætlað var að afkoman yrði 167 milljónir og er afkoman því undir væntingum. Þetta kemur fram í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2016, sem var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Hægt er að nálgast ársreikninginn hér .

Skuldahlutfall lækkar

Skuldahlutfall samstæðunnar lækkaði meira en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Skuldaviðmið samstæðunnar fór í 133,7% en var 148,4% í árslok 2015. Skuldir við lánastofnanir lækkuðu um 147,5 milljónir milli ára. Skammtímaskuldir lækkuðu um 103 milljónir og lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 229,4 milljónir.

Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga hækkaði verulega og var 151 milljón króna, 107,3 milljónum umfram áætlun. Gjaldfærslan hækkaði um 126,4 milljónir á milli ára, langt umfram þróun síðustu ára.

Tekjur aukast

Útsvarstekjur hækkuðu um 177 milljónir króna milli ára og voru heildartekjur sveitarfélagsins um 300 milljónir yfir áætlun. Veltufé frá rekstri var 1.048 milljónir eða 13,7% af heildartekjum.

Samkvæmt fréttatilkynningu sveitarfélagsins er niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2016 jákvæð. „Afgangur er af rekstri samstæðu, tekjur aukast og sjóðstreymi lagast. Skammtíma- og langtímaskuldir lækka og skuldahlutfall lækkar umtalsvert. Þrátt fyrir þetta er enn halli á rekstri aðalsjóðs og A-hluta, þrátt fyrir að tekist hafi að minnka þann halla talsvert á milli ára. Enn þarf því að gæta aðhalds í rekstri,“ segir í tilkynningunni.