Kærurnar í Barclaysmálinu snúast um það hvernig bankinn sótti sér nýtt fjármagn þegar fjármálakreppan reið yfir og komst þannig hjá því að vera tekinn í gjörgæslu ríkissjóðs, eins og svo margar bankastofnanir aðrar. Þær aðgerðir kostuðu breska skattgreiðendur um 50 milljarða punda (um 6,5 billjónir króna), en Englandsbanka reiknast svo til að tjón hagkerfisins nemi a.m.k. 150-faldri þeirri upphæð.

Sú skoðun er algeng að sökudólgar fjármálakreppunnar hafi til þessa sloppið með skrekkinn, bónusa sína og eftirlaun, meðan ótínd alþýðan hafi borið skaðann. Því hafa margir orðið til þess að fagna ákærunum, þótt þær þyki nú frekar seint fram komnar.

Fundnir syndahafrar

Ekki eru þó allir jafnkátir. Nú er það auðvitað þannig að fjársvik eru lögbrot og ef dómarinn kemst að því að sakborningarnir hafi brotið lögin, þá munu þeirra bíða himinháar sektir og sennilega fangelsisdómar.

En hitt er hæpnara að það séu nákvæmlega þessir náungar, sem eigi að vera syndahafrar gervallrar fjármálakreppunnar. Og allra síst fyrir þessar tilteknu sakir.

Þegar ætluð sakarefni áttu sér stað árið 2008 rambaði fjármálakerfi heimsins á barminum. Bæði í Lundúnum og á meginlandi Evrópu voru stjórnvöld komin á fremsta hlunn með að lýsa yfir bankafríi og þjóðnýta bankakerfið að miklu eða öllu leyti. Hinu megin við hafið var Lehman-banki rjúkandi rúst og enginn vissi nema aðrir helstu fjármálastofnanir þar fuðruðu upp líka.

Það var þá, sem stjórnendur Barclays tryggðu bankanum 7,3 milljarða punda fjármögnun frá Katar þegar mest á reið. Hún snerist ekki aðeins um peninginn, heldur ekki síður traustið: nánast engir nema ríkissjóðir treystu sér til þess að fjárfesta í bönkum þá viðsjárverðu daga (og flestir töpuðu megninu af þeim aurum).

Vandinn er sá að Barclays greiddi 332 milljónir punda fyrir ráðgjöf vegna þessa, en ekki er ljóst í hverju hún var fólgin. Saksóknari lætur liggja að því að sú þóknun gangi mútum næst. Verra er þó að Barclays lánaði 3 milljarða punda til Katar, sem saksóknari segir hafa runnið aftur til bankans sem fjárfestingu. Við það geta hvorki eftirlitsaðilar né réttvísin fellt sig.

Neyðarráðstafanir og neyðarréttur

Það er vel skiljanlegt að menn hafi gripið til slíkra örþrifaráða, því þarna var allt í húfi. Bankar og fjármálastofnanir um allan heim héldu að sér höndum, lausafé var víða að þverra og lánsfé hvergi að fá. Við slíkar aðstæður skipti ásýnd bankanna sjálfsagt ekki minna máli en efnahagsreikningurinn (eins og íslenskir bankamenn þekkja vel!).

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .