Bakkavor Group, félag bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, sem eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá , hugðist fara í hlutabréfaútboð í Bretlandi, hefur hætt við, vegna óvissu á mörkuðum.

Kom fram í tilkynningu frá Bakkavör að þó útboðið og skráning félagsins á markað í kjölfarið hefði notið mikils áhuga meðal fjárfesta „þá væri það ekki fyrirtækinu né hluthöfum í hag að láta verða af útboðinu vegna óvissu á hlutabréfamörkuðum.“

Bakkavör, sem auk hlutar bræðranna er í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Baupost, hafði stefnt að því að afla um 100 milljón punda, eða sem nemur 14 milljörðum íslenskra króna í útboðinu að því er Telegraph greinir frá.

Misstu stjórn á fyrirtækinu en náðu henni aftur

Bræðurnir höfðu tekið lán til að fjármagna frekari vöxt fyrirtækisins en þurftu að greiða lánin upp með hlutabréfum í kjölfar bankahrunsins. Misstu þeir stjórnina á fyrirtækinu vegna minni hlutar, en náðu henni aftur í samstarfi við vogunarsjóðinn Baupost.

Árið 2016 var ekki gott á breska hlutabréfamarkaðnum fyrir ný útboð, en það virtist vera sem viðsnúningur væri kominn upp úr miðju ári með tveimur ágætlega heppnuðum útboðum.

Bakkavör er ekki eina félagið sem hefur hætt við útboð að undanförnu, einnig má nefna hollenska fyrirtækið TMF og Arqiva, sem framleiðir farsímaloftnet.