Með áætluðu hlutafjárútboði þegar Bakkavör Group, félagsins sem bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir stofnuðu og náðu svo yfirráðum yfir á ný eftir nokkurt hlé eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá, hyggst félagið greiða niður skuldir.

Jafnframt á að nýta fjármagnið til að fjárfesta frekar í rekstrinum að því er segir í frétt Morgunblaðsins um málið. Núverandi eigendur félagsins munu selja hluta af sinni eign, en áfram verða stórir hluthafar.

Heimildir herma að félagið getur verið frá 140 til 208 milljarða króna virði við skráninguna en bræðurnir eiga um 59% í félaginu. Eignarhlutur þeirra gæti þá verið metinn á 82 milljarða miðað við lægri mörk verðmatsins. Vogunarsjóðurinn Baupost á 41% eignarhlut í félaginu, en hann hefur átt kröfur á föllnu bankana hér á landi.

Bakkavör er með rétt um 30% markaðshlutdeild í sölu ferskra tilbúinna rétta, en fyrirtækið selur til verslana eins og Tesco, Marks & Spencer, Sainsbury´s og Waitrose.

Starfsmenn þess eru um 19 þúsund, en tekjur síðasta ár námu tæplega 1,8 milljörðum punda, eða um 246 milljörðum króna. Tekjur síðasta árs jukust um 5% á milli ára en hagnaðurinn dróst saman um 1% og nam 51 milljón punda. Það gerir um 7 milljörðum íslenskra króna.