*

laugardagur, 20. apríl 2019
Fólk 25. janúar 2017 15:20

Baldur Már ráðinn framkvæmdastjóri Eyju

Eyja fjárfestingafélag er m.a. hluthafi í Domino's, Gló og fleiri veitingastöðum.

Ritstjórn
Baldur Már er nýr framkvæmdastjóri Eyju.
Aðsend mynd

Baldur Már Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eyju fjárfestingafélags, sem er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Eyja á m.a. hlut í Domino's á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð sem og fjölmörgum þekktum veitinga- og kaffihúsum hér á landi, m.a. Gló. Baldur mun fara með framkvæmdastjórn þess félags samhliða starfi sínu hjá Eyju.

Í tilkynningu kemur fram að meginhlutverk Baldurs verði að vinna að fjárfestingum og hafa umsjón með eignasafni Eyju, þar sem hann mun sitja í stjórnum fyrirtækja í eigu Eyju og koma með margvíslegum hætti að rekstri þeirra.

Baldur er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Baldur hefur starfað í fjármálageiranum um 16 ára skeið, síðast sem fjárfestingastjóri á framtakssjóðasviði Virðingar (áður Auði Capital) frá árinu 2009 til ársloka 2016. Þar kom Baldur að fjárfestingum og sölum á fyrirtækjum, samskiptum við fagfjárfesta og eftirfylgni fjárfestinga með stjórnarsetu í fjölda félaga. Þar áður starfaði hann sem fjárfestinga- og lánastjóri hjá Íslandsbanka á árunum 2000-2009, þar af í þrjú ár á skrifstofum bankans í Kaupmannahöfn og New York.

Alls hefur Baldur setið í stjórnum og verið áheyrnarfulltrúi hjá á fjórða tug félaga, hér á landi og erlendis. Baldur Már er giftur Svanhildi Sigurðardóttur, markaðsráðgjafa hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, og eiga þau þrjú börn.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim