Í viðtali í Viðskiptablaðið er Baldur Oddur Baldursson, forstjóri Wow air m.a. spurður út í samkeppnina á flugmarkaði til og frá landinu. Blaðamaður spyr hvort Baldur Oddur telji að pláss verði fyrir Icelandair, Wow air, Iceland Express, easyJet og fleiri aðila á þessum markaði til lengri tíma?

„Já, annars hefðum við ekki farið út í þetta,“ segir Baldur Oddur og glottir við.

Nema þið treystið á að einhver víki af markaði þegar fram í sækir, skýtur blaðamaður inn í.

„Já, en það er erfitt að byggja upp viðskiptamódel sem byggir á dauða annarra,“ segir Baldur Oddur.

„En auðvitað sjáum við að það eru fleiri aðilar að koma inn á markaðinn. Það er af því að þeir telja að það sé eftir einhverju að sækja. Við erum sama sinnis og teljum að það sé eftir einhverju að slægjast á þessum markaði.“

Icelandair byggir sterka stöðu sína á flugi yfir Atlantshafið. Þið og fleiri félög fljúgið beint til og frá Íslandi. Liggur samkeppnin fyrst og fremst á milli ykkar og annarra félaga á borð við Iceland Express og easyJet, svo dæmi séu tekin, eða lítið þið þannig á að þið séuð í beinni samkeppni við Icelandair?

„Já, við erum tvímælalaust í samkeppni við Icelandair,“ segir Baldur Oddur.

„Þeir eru með langstærstu sneiðina af kökunni og það væri því óeðlilegt ef við værum ekki í samkeppni við þá. Við erum í samkeppni við alla aðila á þessum markaði. Við ætlum okkur að ná í sneið af þessari köku en við viljum líka stækka kökuna. Við höfum verið að sjá mikla aukningu í komu ferðamanna síðustu ár. Við bindum vonir við það að ferðamönnum haldi áfram að fjölga. Okkar viðskiptamódel gengur ekki út á það að ýta öðrum út af markaði heldur að ná í bita af þessari stækkandi köku. Það geta allir aðilar lifað á þessum markaði ef þeir standa sig vel.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Baldur Oddur yfir aðdragandann að fyrsta fluginu, samkeppnina á flugmarkaði, stöðu ferðaþjónustunnar og möguleikana á vexti Wow air til framtíðar svo fátt eitt sé nefnt. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.