Sem kunnugt er leigir Wow air tvær tæplega 20 ára gamlar Airbus A320 vélar af litháenska fyrirtækinu Avion Express, sem þó er í eigu Íslendinga. Aðspurður um samstarfið við Avion segir Baldur Oddur Baldursson, forstjóri Wow air, að forsvarsmenn Avion hafi mikla reynslu í þessum bransa og starfi þétt við hlið Wow air.

„Þessar vélar henta leiðarkerfi okkar mjög vel eins og það er uppbyggt núna. Þær hafa ekki flugþol til Bandaríkjanna enda erum við ekki að horfa á það til að byrja með.“

Kemur það til greina?

„Já, vissulega. En nú erum við að horfa til skemmri tíma og erum ekki með flug til Ameríku í þeim plönum okkar. En það er stór markaður í ferðum yfir Atlantshafið og það væri ekki vit í öðru en að skoða það til lengri tíma.“

Við erum nú með sambærilegt félag hér á landi, Iceland Express, sem flaskaði illa á flugi til Ameríku. Að vísu voru þeir með afspyrnulélegar vélar en eruð þið að horfa til reynslu þeirra í þessu?

„Við höfum ekkert verið að skoða þá eða bera okkur saman við þá. En það er vissulega flókið að fljúga yfir Atlantshafið með Ísland sem tengimiðstöð. Þegar fram í sækir og það fer að ganga vel hjá okkur þá er eðlilegt að skoða það alvarlega að útvíkka starfsemina og fljúga til Ameríku. En við ætlum fyrst að læra að skríða áður en við förum að hlaupa,“ segir Baldur Oddur.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Baldur Oddur yfir aðdragandann að fyrsta fluginu, samkeppnina á flugmarkaði, stöðu ferðaþjónustunnar og möguleikana á vexti Wow air til framtíðar svo fátt eitt sé nefnt. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.