Baltasar Kormákur leikstjóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar undirrituðu í dag samning um kaup kvikmyndafyrirtækisins RVK Studios á fasteignum í Gufunesi undir kvikmyndaver. Umsamið kaupverð er 301,6 milljón króna.

Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í síðustu viku samningana við RVK Studios. Um er að ræða fjórar eignir, sem samtals eru tæpir 8.400 fermetrar: Hráefnageymsla 4.161 fermetrar, áfast verksmiðjuhús 2.065 fermetrar, birgðageymsla 1.139 fermetrar og skeljasandsþró 486 fermetrar.

Í tengslum við kaupin fær félagið vilyrði í þrjú ár fyrir um 19.200 fermetra svæði austan bygginganna. Greiðir félagið 1.000 krónur á ári fyrir hvern fermetra fyrir vilyrðið þau þrjú ár sem vilyrðið stendur.Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem barst Viðskiptablaðinu frá Reykjavíkurborg rétt í þessu.