Bandaríska verslunarráðið, stærstu samtök fyrirtækja í landinu hefur hafið herferð gegn tollastefnu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Í gegnum árin hafa samtökin verið sterkur bandamaður Repúblikanaflokks forsetans, en með gagnkvæmum tollum helstu viðskiptalanda Bandaríkjanna í hefndarskyni hefur stefna forsetans vakið áhyggjur meðal fyrirtækjanna.

Samtökin sem 3 milljónir fyrirtækja í landinu eru aðilar að, hyggjast beita víðtækum rannsóknum byggðum á hver áhrifin eru á hvert ríki landsins fyrir sig. Í herferðinni verður vísað í þær rannsóknir og bent á að alþjóðlegt viðskiptastríð muni hafa skaðleg áhrif á fjárhag bandarískra neytenda.

Tollar grafa undan efnahagslegri framþróun

„Stjórnvöld eru að hóta því að grafa undan þeirri efnahagslegu framþróun sem við höfum unnið svo ötullega að því að ná fram,“ segir formaður Viðskiptaráðsins, Tom Donohue. „Við ættum að sækjast eftir frjálsri og sanngjarnri verslun, en þetta er ekki leiðin til að ná því fram.“

Samtökin hafa löngum verið náinn bandamaður Repúblikanaflokksins, og hafa þau lofað aðgerðir forsetans í því að draga úr skattheimtu á fyrirtæki frá því í desember.

Tollum Bandaríkjanna svarað í sömu mynt

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur Trump Bandaríkjaforseti sett á tolla á milljarða dala viðskipti við Kína, Kanada, Mexíkó ásamt Evrópusambandinu sem hann hefur haldið fram að séu nauðsynlegir til að rétta af viðskiptahalla Bandaríkjanna.

En ríkin eru byrjuð að svara í sömu mynt. Til að mynda ákvað Kanada á föstudag að setja tolla á innflutning bandarískra vara sem nema 12,6 milljörðum dala þangað til Bandaríkjastjórn bakkar með ál og stáltolla sem settir voru á landið. Búist er við að Kína setji á nýjan 25% toll á sojabaunir frá Bandaríkjunum í þessum mánuði og Mexíkó er að setja á tolla á innflutning á svínakjöti.

Benda á áhrif á hvert ríki Bandaríkjanna fyrir sig

Evrópusambandið hefur svo sett sértæka skatta á innflutning að andvirði 3,2 milljarða dala sem sérstaklega voru valdar vegna mikilvægis þeirra fyrir efnahag ríkja sem gætu hallast til annað hvort hægri eða vinstri í kosningum.

Bendir Viðskiptaráðið á, byggt á gögnum frá Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna, ásamt opinberum stofnunum í Kína, ESB, Mexíkó og Kanada að sem dæmi muni tollar á vörur framleiddar í Texasríki hafa áhrif á útflutning að andvirði 3,9 milljarða dala.

Tennessee geti svo til að mynda tapað 1,4 milljarða útflutningi og Suður Karólína að andvirði 3 milljarða að því er Reuters fréttastofan greinir frá.