Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lagt bann á ferðir bandarískra ríkisborgara til Norður-Kóreu samkvæmt frétt BBC . Ferðaskrifstofurnar Koryo Tours og Young Pioneer Tours sem báðar selja ferðir til landsins hafa greint frá því að bannið verði tilkynnt opinberlega 27. júlí næstkomandi og muni taka gildi mánuði síðar. Það verður því lögbrot að nota bandarískt vegabréf til að komast inn í Norður-Kóreu.

Ferðaskrifstofurnar fengu þessar upplýsingar frá sænska sendiráðinu í Norður-Kóreu sem fer með málefni Bandaríkjanna í landinu. Ástæða þess að sænska sendiráðið veitti þessar upplýsingar er sú að Bandaríkin eiga ekki í neinum diplómatískum samskiptum við stjórnvöld í Pyongyang.

Bandarísk stjórnvöld hafa staðfest að bannið hafi verið sett á. Bannið kemur í kjölfarið á því að bandaríski nemandinn Otto Warmbier var handtekinn í Norður-Kóreu árið 2016 fyrir glæpi gegn ríkinu og var hann dæmdur í 15 ára nauðungarvinnu. Warmbier var sleppt úr haldi í júní síðastliðnum af heilsufarsástæðum. Þegar honum var sleppt var hann í dái og lést Warmbier af alvarlegum heilaskaða sem hann varð fyrir meðan hann var í haldi. Þess má geta að Warmbier var á ferðalagi á vegum Young Pioneer ferðaskrifstofunnar.