Ráðherra heimavarnarmála í Bandaríkjunum, John Kelly, hefur sagt að endurskoða ætti reglur sem leyfa íbúum Evrópulanda að ferðast án vegabréfsáritunar til Bandaríkjanna.

Sagði hann nauðsynlegt að endurskoða reglurnar því hætta væri á því að hemdarverkamenn á vegum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamska ríkið, eða ISIS, myndu nýta það til að komast til landsins.

Þúsundir hafa ferðast til Írak og Sýrlands

„Við verðum að grandskoða kerfið,“ sagði Kelly að því er segir í frétt CNN . „Ekki með því að afnema kerfið eða bregðast við með öfgafullum hætti, en að skoða það mjög ítarlega.“

Þúsundir manns með vegabréf frá Evrópulöndum hafa ferðast til Sýrlands og Írak síðustu ár og gætu hafa barist fyrir Íslamska ríkið, einnig kallað ISIS.

Gætu gert árásir í Bandaríkjunum

Sagðist Kelly hafa áhyggjur af því að hemdarverkamenn á vegum samtakanna sem snúið hefðu til baka til Evrópu gætu notað undanþáguna frá vegabréfaáritun til Bandaríkjanna til að ferðast til landsins og framkvæma árásir þar.

Ríkisborgarar um 40 landa þurfa ekki að fá vegabréfaáritanir þegar þeir ferðast til Bandaríkjanna ef þeir eru skemur en 90 daga, eru þar með talin Bretland, Frakkland, Japan, Þýskaland og Suður Kórea.

Um 14 milljón manns frá ýmsum Evrópulöndum sem eru meðal þessara þjóða ferðuðust til Bandaríkjanna árið 2015.