Bandaríkjadalur styrktist á mörkuðum dagsins og hefur hann ekki verið sterkari gagnvart evru í meira en áratug. Gerðist þetta í kjölfar þess að seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig úr 0,5% í 0,75%.

Féll gengi evrunnar um meira en prósent og náði það lægst niður í 1,0408 dali, sem er lægsta gildi þess síðan snemma árs 2003. Nýjasta mælingin gefur gildi evrunnar sem 1,04159 dali.

Aukinn vaxtamunur við önnur lönd

Það sem knýr styrk dalsins áfram er að aukinn vaxtamunur milli stýrivaxta víða á vesturlöndum miðað við vextina í Bandaríkjunum sem enn er aðalgjaldeyrisforði flestra ríkja.

Á sama tíma lækkaði gullverð niður í sitt lægsta gildi í 10 mánuði, og hefur það lækkað um 18% frá sínu hæsta gildi í júlí. Samt sem áður nemur hækkun gullverðs á árinu 5,8%.

Þýsk skuldabréf með neikvæða ávöxtun

Á sama tíma og tveggja ára þýsk skuldabréf eru með neikvæða ávöxtun um 0,76% höfðu áþekk bandarísk skuldabréf ávöxtun sem nemur um 1,30%.

Þýðir það að vaxtamunurinn þarna á milli er nú kominn í 2,07%, sem er mesti munurinn þarna á milli síðan snemma árs 2000, sem styrkt hefur gengi dalsins gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Veiking evru, júan, jens, randsins, realsins og pesósins

„Margir sjá einungis áhrifin af ákvörðun bandaríska seðlabankans,“ sagði Marc Chandler, ráðgjafi hjá Brown Brothers Harrmiam, en hann bendir einnig á vanda þýskra skuldabréfa sem náð hafa sögulegu lágmarki í 0,8%.

Evran hefur á sama tíma farið niður fyrir lágmark sitt frá mars árið 2015, þegar markaðsaðilar gerðu ráð fyrir því að magnbundin íhlutun evrópska seðlabankans myndi ýta evrunni í átt að jafnvægi við Bandaríkjadal.

Japanska jenið veiktist niður fyrir 118 yen í dalnum, sem og gjaldmiðlar í nýmarkaðslöndum urðu fyrir áhrifum. Veiktist einnig kínverska júanið niður í sitt lægsta gildi í átta ár, en einnig féll realið í Brazilíu, randið í Suður Afríku og mexíkanska pesóið.

Annar áhrifavaldur á styrkingu dalsins eru væntingar ýmissa markaðsaðila um að forsetatíð Donald Trump muni fylgja aukinn hagvöxtur vegna væntinga um efnahagslegar aðgerðir til að örva hagkerfið af hans hálfu.