Fréttavefurinn SeafoodSource.com greinir frá því að árið 2018 hafi Bandaríkjamenn flutt inn um það bil 300 þúsund tonn af tilapiu. Árið 2017 fluttu þeir inn 410 þúsund tonn, og þá hafði innflutningurinn minnkað smám saman frá því hann náði hámarki í 500 þúsund tonnum árið 2012.

Heimsframleiðslan er hins vegar komin upp í 6,3 milljónir tonna. Kínverjar framleiða sem fyrr mest af tilapiu, eða rúmlega 1,3 milljónir tonna, og selja hana meðal annars ódýrt til Vesturlanda í samkeppni við þorsk og annan hvítfisk.

Bandaríkjamenn tengja tilapiu samt helst við Kína, og viðskiptastríð Trumps forseta við Kína virðist hafa mótað viðhorfin. Bandaríkin lögðu 10 prósenta toll á innflutning frá Kína í september síðastliðnum og hugðust hækka tollinn upp í 25 prósent nú í janúar, en því hefur verið frestað þangað til í mars.

Helsti innflytjandi tilapiu til bandaríkjanna, The Fishin‘ Company, hefur látið gera könnun á viðhorfum neytenda. „Bráðabirgðaútkoman er sú að það er ekki svo mjög tilapian sjálf heldur upprunalandið,“ hefur SeafoodSource.com eftir Heath England, rekstrarstjóra The Fishin‘ Company.

[email protected]