Þrátt fyrir að 142.000 ný störf hafi orðið til í Bandaríkjunum í september samkvæmt tölfræði frá bandarísku vinnumálastofnuninni sem var birt í dag, hafa greiningaraðilar áhyggjur af því að hagkerfið sé að hægja á sér. Ástæðan er sú að fjölgun starfa er minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Atvinnuleysishlutfall stendur nú í 5,1 prósenti en meðallaun lækkuðu aftur á móti lítillega á milli mánaða, eftir að þau hækkuðu um 0,4% í ágústmánuði.

Þessi tíðindi koma í kjölfar þess að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti fyrir aðeins tveimur vikum síðan að vöxtur bandarísks efnahagslífs væri enn of viðkvæmur til að hann þyldi hækkun stýrivaxta, sem eru nálægt núlli.

„Það er ekkert gott við þessa tölfræði," hefur New York Times eftir Carl Tannenbaum , aðalhagfræðingi Northern Trust í Chicago. „Það var mjög lítið um sköpun starfa, laun eru ekki að hækka og atvinnuleysi hefði aukist ef ekki hefði verið fyrir minnkaða atvinnuþáttöku," segir Tannenbaum.