Arðsemi íslensku bankanna hefur farið minnkandi og kostnaður vaxandi. Samkvæmt þeim viðmælendum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við eru víða blikur á lofti í rekstrarumhverfi íslensku bankanna til framtíðar. Það endurspeglist meðal annars í nýlegum uppgjörum Arion banka og Íslandsbanka fyrir fyrsta ársfjórðung.

Almennt segja viðmælendur Viðskiptablaðsins ekki mikla bjartsýni vera til staðar í bankastarfsemi hér á landi. Heiðar Guðjónsson fjárfestir fangaði það viðhorf í ummælum sem hann lét falla í viðtali við Viðskiptablaðið síðastliðið sumar: „Margir hafa áhyggjur af því hvað verði um bankana núna. En ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvort það sé yfirhöfuð einhver framtíð fyrir bankana.“

Hvar á að skapa tekjurnar?

Í verðmati Capacent á Arion banka frá því í byrjun febrúar segir að til framtíðar séu vaxtarmöguleikar íslensku bankanna hverfandi og að öllum líkindum muni þeir takmarkast við innlendan markað og fólksfjölgun. Í norrænum og evrópskum samanburði standi íslensku bankarnir þar að auki höllum fæti sé litið til arðsemi og kostnaðar. Íslensku bankarnir búa við strangar kröfur um eigið fé og laust fé, en eigið fé þeirra er þó vel umfram lögbundnar kröfur, sem bitnar á arðsemi. Þá eru kostnaðarhlutföll íslensku bankanna hærri en hjá erlendum bönkum vegna hærri launakostnaðar, opinberra gjalda og skatta.

Bankaskatturinn svokallaði – 0,376% skattur á allar skuldir – bitnar sérstaklega á arðsemi bankanna. Skatthlutfall Arion banka vegna tekjuskatts og bankaskatts var um 30% á fyrsta ársfjórðungi og greiddi bankinn nærri því jafn mikið í bankaskatt og tekjuskatt. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er gert ráð fyrir því að bankaskatturinn muni meira en helmingast í þrepum, þó hann verði ekki afnuminn.

Samkeppnishæfni bankanna á lánamarkaði hefur ekki síst beðið hnekki vegna hárra skatta og krafna um eigið fé og laust fé. Þannig hafa lífeyrissjóðir aukið hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði og erlend fjármálafyrirtæki aukið hlutdeild sína í lánum til íslenskra útflutningsfyrirtækja. Fjártæknifyrirtæki eru einnig að sækja í sig veðrið, en bankarnir hafa fjárfest töluvert í tækninýjungum til að bregðast við þeirri þróun.

Í greiðslumiðlun eru viðskiptabankarnir einnig að missa forskot sitt. Má þar nefna tilkomu nýrrar Evróputilskipunar, PSD2, og nýrrar tækni á borð við blockchain .

Þá nefna viðmælendur Viðskiptablaðsins að tekjumöguleikar fjármálastofnana á Íslandi liggi aðallega í fyrirtækjaráðgjöf, svo sem í samrunum og yfirtökum. Strangar reglur um kaupauka – sem eru mun meira íþyngjandi á Íslandi en innan Evrópusambandsins – geri það þó að verkum að bankarnir eigi erfiðara en ella með að lokka til sín hæfasta fólkið til að sinna þeirri starfsemi.

Loks hefur pólitísk óvissa á Íslandi lengi verið nefnd sem baggi á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja.

Lyst á arðgreiðslugetunni

Þó að ofangreindir þættir dragi mögulega úr áhuga erlendra langtímafjárfesta á Arion banka, sem verður brátt skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, nefna viðmælendur Viðskiptablaðsins að einn sterkasti sölupunktur bankans sé mikil arðgreiðslugeta til framtíðar.

Arion banki byrjaði að losa umfram eigið fé í mars síðastliðinn með endurkaupum og arðgreiðslum, en enn er mikið eigið fé í bankanum umfram lögbundin viðmið og kröfur eftirlitsaðila. Samkvæmt fjárfestakynningu bankans er stefnt að því að greiða út um helming hagnaðar til hluthafa á hverju ári til meðallangs tíma.

Þá eru hagvaxtarhorfur á Íslandi góðar, auk þess sem bankinn býr yfir gæðamiklu útlánasafni á evrópskan mælikvarða. Enn fremur náði Landsbankinn 13,7% arðsemi á eigin fé á fyrsta ársfjórðungi, sem bendi til þess að Arion banki geti aukið sína arðsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .