Með því að færa eiginfé íslensku viðskiptabankanna úr 23% niður í 16% meðaltal hinna Norðurlandanna, gætu þeir greitt út samtals um 240 milljarða í arð til eigenda sinna. Ný greining Danske Bank fjallar um að eigið fé íslensku bankanna sé mun ríflegra en hjá öðrum norrænum bönkum, en um er að ræða svokallað almennt eigið fé þáttar 1 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Vilja útgreiðslu fyrir sölu bankanna

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að hægt sé að minnka bankakerfið með því að taka tugi ef ekki hundruð milljarða út úr því áður en þeir yrðu seldir. Sagði hann að hægt væri að nota peningana í innviðauppbyggingu í landinu í kosningaþætti í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum forsætisráðherra og fyrrum formaður Framsóknarflokksins og núverandi formaður Miðflokksins hefur meðal sinna helstu kosningamála að bankarnir greiði umfram eigið fé í ríkissjóð.

Íslandsbanki heimtur til baka úr höndum slitabúa

Til þess að fara niður í 16% eigið fé þyrfti Arion banki að greiða út 88,7 milljarða króna, Íslandsbanki 53,5 milljarða og landsbankinn um 97 milljarða. Síðarnefndu tveir bankarnir eru nú í höndum íslenska ríkisins en Arion banki, sem og reyndar Íslandsbanki, lenti undir stjórn kröfuhafa bankans í tíð í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Ríkið eignaðist síðan Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlaginu sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem var til að byrja með undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, krafðist af slitabúunum.

Ekki er talið að hægt yrði að greiða fjármunina hratt út, en Íslandsbanki setti á fjórða ársfjórðungi síðasta árs sér það markmið að eiginféð yrði að hærra en 15%. Arion banki hefur sett sér það markmið að eiginfjárhlutfallið ætti að fara undir 17% á næstu fjórum til fimm árum.