Síðla árs 2002 seldi ríkið 45,8% eignarhlutar síns í Landsbankanum og sama hlut í Búnaðarbankanum. Hluturinn í Landsbankanum var seldur á 12,3 milljarða króna og hluturinn í Búnaðarbankanum á 11,9 milljarða. Á verðlagi dagsins í dag voru næstum því helmingshlutir í tveimur ríkisbönkum seldir á um 47 milljarða króna.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að hugmyndir markaðsaðila um réttmætt verð fyrir íslenska banka um þessar mundir lægju á milli 60% og 100% af bókfærðu eigin fé bankanna. Í einkavæðingunni 2002 var hlutur ríkisins í Landsbankanum hins vegar seldur á um 166% af bókfærðu virði sínu og hluturinn í Búnaðarbankanum á 174% af bókfærðu virði. Á árunum fyrir hrun, þegar stóru bankarnir þrír voru skráðir á markað, var markaðsvirði þeirra iðulega um og yfir 200% af eigin fé.

Minni væntingar um vöxt

Helsta ástæða þess hve miklu munar á þeim eiginfjármargföldurum sem ríktu fyrir hrun og þeim sem markaðsaðilar nefna núna eru vafalítið ólíkar væntingar um vöxt, hagnað og áhættu í rekstri bankanna. Hár eiginfjármargfaldari getur endurspeglað væntingar fjárfesta um mikla arðsemi eigin fjár og mikla vaxtarmöguleika.

Óhætt er að segja að í upphafi síðasta áratugar hafi væntingar um vöxt íslenskra banka verið meiri en um þessar mundir. Þá kann lágur eiginfjármargfaldari að endurspegla það að fjárfestar telji bankarekstur á Íslandi áhættusamari heldur en þeir töldu fyrir hrun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .