Í ræðu sinni á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að aukin skattlagning á fjármálafyrirtæki hafi skilað meiri tekjum en búist var við. RÚV greinir frá þessu. Hann segir jafnframt að ríkið muni taka til varnar ef slitastjórn Glitnis höfði mál gegn ríkinu vegna skattlagningarinnar.

Lagt hefur verið upp með að 20 milljarðar af tekjum vegna bankaskattsins verði notaðir til að greiða fyrir skuldaniðurfellingar. Bjarni segir það vera áhorfsmál hvaða skattar séu notaðir til að greiða hvað en að fjármögnun hafi verið tryggð vegna skuldaniðurfellingarinnar.

Í samtali við RÚV segir Bjarni að ríkisvaldið hafi mjög víðtækar heimildir til að ákveða skattlagningu og hvaða skattstofnar skulu vera þar undir. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar sé sú að það sé enginn vafi að skatturinn haldi og að ríkið muni taka til varna ef „menn reyna að hnekkja á honum".