Fjármálaráðherra Bretlands, Philip Hammond heitir því að viðhalda því að helstu starfsmenn banka og fjármálastofnana geti flutt sig óhindrað til landsins eftir að landið yfirgefur Evrópusambandið.

Er það liður í tilraunum til að tryggja að fjármálahverfið City í London haldi stöðu sinni sem helsta fjármálamiðstöð álfunnar.

Þrýstingur frá Japan og leiðandi bönkum

Fjármálaráðherrann lýsti þessu yfir í kjölfar þrýstings frá Japan og leiðandi bönkum, á sama tíma og hann varaði leiðtoga sambandsins við því að það myndi skaða þeirra eigin hagsmuni ef þeir reyndu að notfæra úrsögnina til að grafa undir stöðu London sem fjármálamiðstöðvar.

Tók hann skýrt fram að aukin stjórn breskra stjórnvalda á því hverjir ynnu í landinu ætti „ekki að valda japönskum fjármálafyrirtækjum áhyggjum,“ í kjölfar þess að stjórnvöld í Japan hafa beðið um að ríkisborgarar í Evrópusambandinu geti áfram unnið í Bretlandi.

Sem svar við spurningum um stjórn á flutningi fólks svaraði hann nefnd Lávarðadeildarinnar því að „Við munum á ábyrgan hátt tryggja að verðmætt starfsfólk geti farið milli fjármálastofnana og fyrirtækja.“

Greiðslujöfnunarviðskipti áfram í London

Hammond dró jafnframt í efa fullyrðingar Charlie Bean fyrrum varabankastjóra Englandsbanka að London myndi missa greiðslujöfnunarviðskipti með evrur, en slík viðskipti skipta lykilmáli fyrir fjármálahverfið í borginni.

Langstærsti hluti slíkra viðskipta í evrum fara fram í Bretlandi, en um þriðjungur 3.000 milljarða dollara afleiðuviðskipta heimsins fara fram í gjaldmiðlinum.

Sagði hann að greiðslujöfnun væri „gríðarleg viðskipti sem hefðu hag af stærðarhagkvæmni,“ og sagði hann að tilraunir til að hafa af London slík viðskipti myndu ekki gagnast Evrópusambandinu, heldur myndu þau færast þá frekar til New York.