Íslandsbanki hefur óskað eftir því að því að Skólavörðustígur 42, þar sem Hótel Adam er til húsa, verði selt á nauðungarsölu að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu. Þar segir að verði ekki búið að ganga frá greiðslum fyrir 14. júní verði húsið selt á uppboði á skrifstofum sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu.

Alls er um að ræða sex fasteignanúmer á Skólavörðustíg 42. Fjárhæð krafna á hverju hluta fasteignarinnar, sem er í eigu R. Guðmundssonar ehf, rekstaraðila og eiganda hótelsins , nemur um 25 milljónum króna.

Töluvert hefur verið fjallað um aðbúnað á Hótel Adam og Ragnar Guðmundsson, eiganda þess. Í október var R. Guðmundssyni gert að greiða starfsmanni hótelsins 2,3 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Þá voru gestir varaðir við því að drekka kranavatn á hótelinu en þess í stað bent á að kaupa vatnsflöskur á hótelinu sem reyndust einnig innihalda kranavatn . Meirihluti gesta sem skilið hafa eftir umsögn um hótelið á Tripadvisor gefa dvölinni eina stjörnu af fimm. Þá innsiglaði lögregla 9 hótelherbergi á hótelinu árið 2016 að því er RÚV greindi frá.