Vinnueftirlitið bannaði endurvinnslufyrirtæki í Hveragerði að starfrækja 8 vélar fyrirtækisins á forsendum um að af þeim stafaði hættu.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að við eftirlitsheimsókn í verksmiðju Pure North Recycling ehf. að Sunnumörk 4 í Hveragerði hafi komið í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna væri ekki í samræmi við lög og reglur.

Bannaði stofnunin því alla vinnu við 8 vélar þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna var talin hætta búin af þeim á grundvelli reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ekki má hefja vinnu við vélarnar fyrr en búið er að gera úrbætur í samræmi við fyrirmæli Vinnueftirlitsins og stofnunin hefur leyft vinnu þar á ný segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Meðal athugasemda vinnueftirlitsins er að þrjú af tækjunum eru án skoðunar, en öryggishlífar vantar yfir keðjudrif og snigil annars tækis, auk þess sem mötunargryfja er óvarin. „Setja skal öryggishlífar yfir keðjudrif og snigið þannig að útilokað sé fyrir utanaðkomandi að setja útlimi þar á meðan vél er í gangi,“ segir m.a. í athugasemdum eftirlitsins.

Loks er þvottavél án öryggishlífa yfir keðjudrifum auk þess sem mötunarhjól eru án hlífa. „Setja skal öryggishlífar yfir keðjudrif þvottavélar auk þess skal setja upp varnir er hindra að hægt sé að komast að mötunarhjólum þvottavélar á meðan hún er í gangi.“