Eiríkur Sigurðsson færði tap af hluta afleiðusamninga frá hagnaði annarra afleiðusamninga innan sama tekjuárs og taldi fram 212 milljóna króna tekjur af þeim. Fyrirtækjum er heimilt til að gera slíkt innan sama tekjuárs en ekki einstaklingum að mati ríkisskattstjóra. Skattstjóri taldi þessu samkvæmt Eirík hafa vantalið tekjur sínar um 813 milljónir króna. Málið fjallar um 102 afleiðusamninga sem Eiríkur gerði við Landsbankann í íslenskum krónum, norskum og evrum og uppgjör þeirra árið 2007. Hluti afleiðusamninganna skilaði hagnaði upp á rúman einn milljarð króna en var tap á öðrum.

Skattrannsóknarstjóri taldi Eirík og Hjalta Magnússon, endurskoðanda hans, hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali og kærði málið til lögreglu. Mál embættis sérstaks saksóknara var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur þeim báðum segir að um meiri háttar brot gegn skattalögum sé að ræða. Refsingar er krafist yfir þeim báðum auk þess að Hjalti missi löggildingu sína sem endurskoðandi.

Fyrrverandi skattakóngur

Eiríkur stofnaði verslunina 10-11 en seldi hana til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar árið 1998 fyrir rúmar 900 milljónir króna. Eftir söluna varð hann skattakóngur og einn af ríkustu mönnum landsins. Verslanir 10-11 urðu síðar hluti af Haga-samstæðunni.

Eiríkur kemur fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis yfir 100 stærstu skuldara bankanna í lok árs 2007. Eiríkur var þar í 74. sæti og voru skuldir hans sagðar nema 62,9 milljónum evra, jafnvirði 5,7 milljarða króna.