Ljósmynd af þeim Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, etja kappi í sjómanni fór á 120 þúsund krónur á uppboði sem helstu ljósmyndarar landsins stóðu fyrir í Gyllta sal Hótel Borgar í kvöld. Myndina tók ljósmyndarinn Ásgeir Ásgeirsson hjá Pressphotos á dögunum sérstaklega fyrir uppboðið. Þetta var dýrasta ljósmyndin sem seldist á uppboðinu. Steingrímur fylgdist með uppboðinu á Hótel Borg en bauð ekki í myndina.

Rúmar tvær milljónir króna söfnuðust á uppboðinu en það var haldið til styrktar ljósmyndaranum og margmiðlunarhönnuðinum Ingólfi Júlíussyni. Ingólfur er einn af þekktustu ljósmyndurum landsins og hefur m.a. unnið fyrir Reuters-fréttastofunar og Viðskiptablaðið. Ingólfur greindist nýverið með bráðahvítblæði. Hann hefur verið á sjúkrahúsi síðan í október og mun gangast undir mergskipti í Svíþjóð eftir áramótin.

Fjöldi ljósmyndara eftir þekktustu ljósmyndara landsins voru til sölu á uppboðinu sem Gallerí Fold stýrði og seldust allt sem í boði var. Á meðal annarra verka sem boðin voru upp var ljósmynd eftir Jón Gnarr borgarstjóra úr röð helgimynda um píslargöngu Jesús sem hann sýndi í Fríkirkjunni árið 2004. Ýmsar brúður, s.s. Action Man og Barbie-dúkkur túlkuðu frelsarann og ýmsar persónur í kringum hann.

Þá seldist málverk eftir Tolla á 180 þúsund krónur. Ein síðasta myndin af þeim Tom Cruise og Katie Holmes á gangi í miðbænum seldist undir 100 þúsund krónum. Þetta er eina prentaða eintakið sem til er af myndinni en eins og þekkt er skildu leikararnir um þetta leyti.

Steingrímur Sigfússon etur kappi við Bjarna Benediktsson.
Steingrímur Sigfússon etur kappi við Bjarna Benediktsson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)