*

laugardagur, 26. maí 2018
Innlent 25. nóvember 2012 22:04

Barátta formanna kostaði 120 þúsund krónur

Rúmar tvær milljónir króna söfnuðust á uppboði ljósmyndara til styrktar Ingólfi Júlíussyni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Flokksformennirnir takast á.
Haraldur Guðjónsson

Ljósmynd af þeim Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, etja kappi í sjómanni fór á 120 þúsund krónur á uppboði sem helstu ljósmyndarar landsins stóðu fyrir í Gyllta sal Hótel Borgar í kvöld. Myndina tók ljósmyndarinn Ásgeir Ásgeirsson hjá Pressphotos á dögunum sérstaklega fyrir uppboðið. Þetta var dýrasta ljósmyndin sem seldist á uppboðinu. Steingrímur fylgdist með uppboðinu á Hótel Borg en bauð ekki í myndina. 

Rúmar tvær milljónir króna söfnuðust á uppboðinu en það var haldið til styrktar ljósmyndaranum og margmiðlunarhönnuðinum Ingólfi Júlíussyni. Ingólfur er einn af þekktustu ljósmyndurum landsins og hefur m.a. unnið fyrir Reuters-fréttastofunar og Viðskiptablaðið. Ingólfur greindist nýverið með bráðahvítblæði. Hann hefur verið á sjúkrahúsi síðan í október og mun gangast undir mergskipti í Svíþjóð eftir áramótin. 

Fjöldi ljósmyndara eftir þekktustu ljósmyndara landsins voru til sölu á uppboðinu sem Gallerí Fold stýrði og seldust allt sem í boði var. Á meðal annarra verka sem boðin voru upp var ljósmynd eftir Jón Gnarr borgarstjóra úr röð helgimynda um píslargöngu Jesús sem hann sýndi í Fríkirkjunni árið 2004. Ýmsar brúður, s.s. Action Man og Barbie-dúkkur túlkuðu frelsarann og ýmsar persónur í kringum hann. 

Þá seldist málverk eftir Tolla á 180 þúsund krónur. Ein síðasta myndin af þeim Tom Cruise og Katie Holmes á gangi í miðbænum seldist undir 100 þúsund krónum. Þetta er eina prentaða eintakið sem til er af myndinni en eins og þekkt er skildu leikararnir um þetta leyti.