Fyrrum varaformaður UK Independence Party, Suzanne Evans hefur viðurkennt ósigur sinn í baráttunni um að taka við Farage sem leiðtoga. Lýsir hún yfir stuðningi við Lisa Duffy sem situr í sveitastjórn fyrir flokkinn sem leiðtoga. Henni hefur verið lýst sem frambjóðandanum sem er ólíkust Nigel Farage sem nú hættir sem leiðtogi.

Aðrir frambjóðendur í leiðtogahlutverkið eru Jonathan Arnott, Bill Etheridge og Steven Woolfie.

Varð leiðtogi til skamms tíma

Evans, fyrrum talsmaður flokksins í velferðarmálum, varð bráðabirgðaleiðtogi flokksins í kjölfarið á afsögn Nigel Farage þegar hann tapaði kosningu til breska þingsins í maí í fyrra.

Segir hún flokkinn verða að færast meira til vinstri, og gagnrýndi þá innan flokksins sem hún kallaði teboðshreyfinguna og sagði nauðsynlegt að flokkurinn losnaði við harðlínuhægriímynd sína.

Nigel Farage er helsta andlit flokksins

Nigel Farage sem leitt hefur flokkinn nánast samfleitt síðustu 10 árin, sagði af sér, fyrst í kjölfar ósigursins í South Thanet kjördæminu þar sem hann lenti í öðru sæti með 32,4% atkvæða en frambjóðandi Íhaldsflokksins, Craig Mackinley tók sæti kjördæmisins með 38,1%.

Eftir að forysta flokksins hafnaði afsögn hans tók hann við leiðtogahlutverkinu á ný fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi en sagði svo af sér endanlega eftir að sigurinn þar var í höfn.

Flokkurinn þarf að skilgreina sig upp á nýtt

Sagði hann hlutverki sínu lokið, en nýr leiðtogi þyrfti að taka við nú í kjölfarið til að endurskilgreina hlutverk flokksins í kjölfarið á því að meginmarkmiði hans um úrsögn úr Evrópusambandinu hefði verið náð.

Evans var vikið úr starfi sínu sem talsmaður flokksins í velferðarmálum og úr flokknum tímabundið í 6 mánuði í mars vegna skorts á hollustu samkvæmt ákvörðun nefndar flokksins sem tekur ákvörðun um þess háttar mál.