Danski leikfangaframleiðandinn Lego hefur vaxið gríðarlega á síðustu tíu árum. Árið 2016 var svo enn eitt metárið, en sala félagsins jókst um 6% og nam alls 5,38 milljörðum dala.

Þrátt fyrir þennan mikla vöxt, hefur fyrirtækið ekki náð að taka fram úr leikfangaframleiðandanum Mattel, sem á meðal annars vörumerkið Barbie.

Samkvæmt BBC seldi Lego yfir 75 milljarða kubba, en Star Wars Millennium Falcon var vinsælasta vara, annað árið í röð.

Mattel seldi fyrir ríflega 5,46 milljarða dala og er þar með stærsti leikfangaframleiðandi heims, þegar litið er til sölu. Samt sem áður dróst salan hjá Mattel saman um 4% milli ára.

Hasbro, sem framleiðir meðal annars My Little Pony, er í þriðja sæti og seldi fyrir ríflega 5,02 milljarða dala.

Lego hefur gengið vel að auka sölu í Evrópu, en salan í Bandaríkjunum hefur nánast haldist óbreytt, þrátt fyrir meiri markaðssetningu.