Tveir breskir bankar, Standard Chartered og Barclays hafa hafið rannsókn á því hvort þeir hafi verið notaðir af háttsettum fulltrúum Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA til mútugreiðslna. Þesu greinir BBC frá.

Eins og VB.is greindi frá í gær voru fjórtán einstaklingar, þar af sjö háttsettir fulltrúar FIFA, handteknir í Sviss á þriðjudaginn og framseldir til Bandaríkjanna. Mennirnir eru sakaðir um að hafa tekið þátt í mútugreiðslum upp á 150 milljónir dollara eða sem samsvarar um 20 milljörðum íslenskra króna. Bandarísk yfirvöld hyggjast kæra og handtaka fleiri einstaklinga í tengslum við rannsókn á spillingu innan knattspyrnuheimsins.

Þrír breskir bankar, Standard Chartered, Barclays og HSBC voru nefndir til sögunnar meðal tuga annarra banka í ákærum bandarísku alríkislögreglunnar FBI á hendur sjömenningunum, í síðustu viku.

Fulltrúar HSBC og Barclays vildu ekki tjá sig um málið við BBC, hins vegar sagði fulltrúi Standard Chartered að þar sé verið að kanna hvort greiðslur hafi farið þar í gegn.