*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 15. desember 2017 13:41

Basko kaupir 50% í Eldum Rétt

Basko, eigandi 10-11 og Iceland, hefur keypt 50% hlutafjár í Eldum Rétt af stofnendum félagsins.

Ritstjórn
Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermannsson, stofnendur Eldum Rétt.
Haraldur Guðjónsson

Basko ehf., hefur undirritað kaupsamning um kaup á 50% hlutafjár í Eldum rétt ehf.  Seljendur eru félög í eigu Kristófers Júlíusar Leifssonar og Vals Hermannssonar, stofnenda Eldum rétt.  Kristófer og Valur munu áfram starfa sem framkvæmdastjórar félagsins.  Eldum rétt býður viðskiptavinum upp á að fá sent til sín, eða sótt, hráefni og uppskriftir að  hollum máltíðum fyrir heimilið.

 Basko fer með eignarhald á nokkrum félögum sem reka verslanir undir merkjum Iceland, 10-11, Kvosarinnar ásamt því að hafa einkaleyfi á rekstri kaffihúsa Dunkin Donuts á Íslandi.  Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.  Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermannsson, stofnendur Eldum rétt:

„Frá því að Eldum rétt var stofnað árið 2013 hefur félagið vaxið hratt og viðtökur viðskiptavina okkar verið frábærar. Vöruúrvalið hefur aukist mikið og bjóðum við þjónustu okkar á völdum svæðum á landsbyggðinni. Á þessum tímapunkti töldum við rétt að fá öfluga aðila með sérþekkingu í smásölu inn í hluthafahópinn til þess að styðja við frekari þróun og vöxt félagsins og halda áfram að veita viðskiptavinum okkur framúrskarandi þjónustu.  Framundan er spennandi tími þar sem við munum kappkosta að gera enn betur fyrir viðskiptavini okkar. Við erum mjög ánægðir með að fá Basko inn í hlutahafahóp félagins,“ er haft eftir Kristófer Júlíusi Leifssyni og Vali Hermannssyni í tilkynningu.

Þá er einnig haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Basko, að ánægjulegt sé að vera hluti af upbbygingu Eldum Rétt. „Eldum rétt er skemmtilegt fyrirtæki sem hefur náð að skapa sér sérstöðu.  Fyrirtækið er þekkt fyrir gæði og framúrskarandi þjónustu.  Aðkoma Basko að Eldum rétt er liður í að styrkja fyrirtækið og gera því kleift að sækja enn frekar fram í þjónustuframboði fyrir heimilin í landinu. Við erum virkilega ánægð með að fá að vera þátttakendur í uppbyggingu á Eldum Rétt og hlökkum til þess að taka næstu skref með þeim,“ segir Árni Pétur.