Basko ehf., sem rekur meðal annars 10-11 búðirnar og Iceland, hefur keypt allt hlutafé Kvosarinnar sem rekur samnefnda verslun við Aðalstræti 8 og Best of Iceland verslunina við Aðalstræti 6, Reykjavík. Seljendur eru Kjartan Örn Sigurðsson og Guðmundur Gíslason og hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt kaupin.

Basko fer með eignarhald á nokkrum félögum sem reka verslanir undir merkjum 10-11 og Iceland og hefur einkaleyfi á rekstri kaffihúsa Dunkin Donuts á Íslandi.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri og hluthafi í Basko ehf. segir við tilefni: „Kaupin á Kvosinni er liður í að styrkja félagið enn frekar miðsvæðis þar sem vöxtur hefur verið mikill undanfarin ár með fjölgun ferðamanna og hótela.  Við erum virkilega ánægð með að Kvosin sé orðin hluti af eignasafni Basko.“

Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kvosarinnar segir: „Kvosin opnaði árið 2009 í Aðalstræti og hafa núverandi eigendur rekið hana frá árinu 2012. Við göngum sáttir frá borði og erum viss um nýir eigendur muni halda áfram að veita viðskiptavinum verslunarinnar framúrskarandi þjónustu“.