Byko og Húsasmiðjan buðu Múrbúðinni að taka þátt í verðsamráði árið 2010, að sögn Baldurs Björnssonar, framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar.

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag lýsir Baldur því hvernig Byko og Húsasmiðjan höfðu samband við hann til að skiptast á upplýsingum, þegar Baldur ákvað að taka upp sölu á timbri og plötum.

Hann segir að starfsfólk Húsasmiðjunnar og Byko hafi viljað skiptast á upplýsingum, en ekki hefði mátt senda tölvupóst, heldur yrði að hittast til að forðast að samkeppnisaðilar kæmust yfir málið. Samkeppniseftirlitinu var strax tilkynnt um samráðið.

Þegar Múrbúðin hóf sölu á timbri segir Baldur að fyrirtækin tvö hafi samstundis lækkað verðið á sömu vörum um 25%. Hann segir þetta hafi verið augljósa tilraun til að koma Múrbúðinni útaf markaðnum.

Eins og VB.is greindi frá hefur fyrri rekstraraðili Húsasmiðjunnar viðurkennt brot á samkeppnislögum og lauk málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið og greiðslu 325 milljóna króna sektar.