*

föstudagur, 19. október 2018
Innlent 22. nóvember 2017 18:18

BBC: Marel eygir 820 milljarða markað

Íslenska tæknifyrirtækið er í ítarlegri umfjöllun á vefsíðu BBC þar sem rætt er við forstjóra fyrirtækisins um vaxtatækifærin.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Breski ríkisfjölmiðillinn BBC fjallar ítarlega um vöxt Marel allt frá stofnun félagsins árið 1983, upp í það 5 þúsund starfsmanna fyrirtæki sem það er í dag á vefsíðu sinni. Fylgjast blaðamenn BBC meðal annars með hátæknilegri vinnslu á þorski í íslenskri fiskverksmiðju sem notar búnað Marel og rætt er við Árna Odd Þórðarson forstjóra Marel um vöxt fyrirtækisins.

Frá því að fyrirtækið var stofnað upp úr verkefni á vegum Háskóla Íslands til að bæta framleiðni í íslenskum fiskiðnaði, byrjaði það að selja búnað til Kanada innan árs og innan tveggja ára til Sovétríkjanna sálugu.

Gerðu mistök til að byrja með í Kína

Árni Oddur segir í umfjölluninni að það hafi þó ekki alltaf gengið fyrirhafnarlaust að fara inn á nýja markaði, en í dag framleiðir fyrirtækið hátæknimatvinnslubúnað fyrir bæði fisk og kjöt.

Til að mynda hafi fyrirtækið fyrst gert mistök þegar þeir fóru inn á kínverskan markað því þeir hafi þar gert það sama og eftirspurn er eftir á vesturlöndum, það er að fjarlægja bringurnar af kjúklingnum á öruggan og hreinan hátt.

Síðan hafi þeir þurft að aðlaga vélarnar til að geta betur svarað eftirspurn kínverskra neytenda á kjúklingaleggjum, sem hafi oft eyðilagst í ofuráherslunni að ná bringunum vel og hreinlega úr fuglunum.

„Svo við vorum í orðsins fyllstu merkingu að brjóta löpp þegar við fórum fyrst inn á kínverska markaðinn fyrir 15 til 20 árum síðan,“ segir Árni oddur í samtali við blaðamann BBC.

Ríflega 20% tekjuaukning á hverju ári

Segir forstjórinn að kraftur hafi fyrst komist í áherslu fyrirtækisins á að kaupa upp ný fyrirtæki í svipuðum geira á tíunda áratugnum, en lærdómurinn af því hafi verið að ganga þyrfti hratt til verks við að samræma framleiðslu fyrirtækjanna í kjölfar yfirtökunnar.

Tekjur fyrirtækisins hafi svo aukist um meira en fimmtung á ári alveg síðan árið 1992, og nú hafi félagið um 5 þúsund starfsmenn út um allan heim. Segir í fréttinni að 99% af tekjum fyrirtækisins komi nú til af starfseminni erlendis.

Fjárfesta 6% í þróunarvinnu

Þar af komi um 60% af tekjum fyrirtækisins úr sölu, en um 40% af þjónustu og viðhaldi, en félagið leggur áherslu á að bjóða framsæknari tækni heldur en keppinautar félagsins.

„Við fjárfestum 6% af tekjum okkar í þróunarvinnu, sem þýðir að við fjárfestum um 60 milljón Bandaríkjadölum í þróunarvinnu,“ segir Árni Oddur, en það gerir um 6,2 milljarða íslenskra króna.

Búist við ríflega þriðjungsstækkun markaðarins

Búist er við því að markaðurinn fyrir vörur sem þjónusta matvinnsluiðnaðinn með fisk, kjöt og fuglakjöt muni stækka upp í 7,9 milljarða dali, eða sem nemur 820 milljörðum íslenskra króna til ársins 2021. Á síðasta ári var stærð markaðarins um 5,8 milljörðum dala svo Árni Oddur segir fyrirtækið ákveðið í að halda vextinum áfram. Miðað við þessar tölur er búist við að markaðurinn vaxi um 3,6%.

„Í dag stækka markaðir okkar hratt í Suður Ameríku, Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum,“ segir Árni Oddur. „Ef þú vilt ná fram raunverulegum breytingum, verða fyrirtæki að ná til heimsins alls og þjónusta alla markaði.“