Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð á fundi með fjórum verkalýðsfélögum í gær. Meðal fundarmanna var Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, ásamt fulltrúum Verkalýðsfélags Grindavíkur, Eflingar og VR. Vilhjálmur segist bundinn trúnaði um efnisatriði en verið sé að fara ítarlega yfir tilboðið.

„Við óskuðum svo eftir öðrum fundi strax nk. föstudag og þá munum við veita tilboðinu formlegt svar,“ segir Vilhjálmur, en bætir við að fleira þurfi að koma til eigi samningar að nást.

„Okkar markmið er að ná utan um það fólk sem ekki sér til sólar vegna lélegra kjara og stjórnvöld geta gripið til margvíslegra aðgerða til að hjálpa okkur að ná til þessa hóps, t.d. með breytingum á skattalögum, leiguvernd og vernd gegn vaxtaokri og húsnæðislið verðtryggingarinnar,“ segir Vilhjálmur.

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins vildu ekki tjá sig um tilboðið að svo stöddu.