Viðskiptaráð slær varnagla við útfærslu ákveðinna tillagna um skattkerfisbreytingar sem verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur sett fram.

Segja þó endurskoðun í átt að aukinni skilvirkni löngu tímabært skref.

Bein gjaldtaka í stað hækkunar gistináttagjalds

Nefnir ráðið þar sérstaklega hugmyndir um hækkun gistináttagjalds, en ráðið hefur talað fyrir beinni gjaldtöku á ferðamannastöðum til að gjaldheimtan dragi úr átroðningi á vinsælustu ferðamannastöðunum og skapi hvata til uppbyggingar nýrra áfangastaða.

Segja þeir íslenskt skattkerfi hafa neikvæðari áhrif á hegðun og lífskjör hérlendis heldur en raunin þyrfti að vera og því sé endurskoðun á því sem miði að aukinni skilvirkni og einfaldleika löngu tímabært skref.

Vonast þó ráðið til að tillögurnar stuðli að málefnalegri og efnisríkri umræðu sem leiði til aukinnar hagvæmni skattheimtunnar.

Helstu ágallar íslenskra skattkerfisins að mati Viðskiptaráðs eru:

  • Háir jaðarskattar á millitekjufólk sem dragi úr hvata einstaklinga til að auka við tekjur sínar
  • Lægri grunnlaun en þyrftu að vera vegna mismunar á milli kostnaðar vinnuveitenda og útborgaðra launa.
  • Virðisaukaskattkerfi með þrepaskiptingu og víðtækum undanþágum skekki neyslumynstur einstaklinga, dragi úr hagkvæmni skattsins og skapi hvata til undanskota.
  • Fjármagnstekjuskattur á nafnávöxtun veldur því að einstaklingar taka of mikla áhættu með sparnað sinn, en í tillögunum er gert ráð fyrir að skattlagningin verði af raunávöxtun í staðinn.
  • Skapi hvatast til of mikillar skuldsetningar fyrirtækja með misræmi í skattlagningu vaxta- og arðgreiðslna.

Ráðið bendir einnig á galla á fasteignasköttum hérlendis:

  • Hvati skapast til rangrar skráningar vegna þess að atvinnuhúsnæði er skattlagt sexfalt á við íbúðarhúsnæði, það dregur úr skilvirkni skattheimtunnar
  • Að stimpilgjöld vegna fasteignaviðskipta voru margfölduð árið 2013, en þeir segja þessi gjöld hafa verri áhrif en flesta aðra skatta.
  • Of hátt hlutfall fasteignaskatta leggist á byggingar, og of lágt á lóðirnar, sem dregur úr hagkvæmni byggðaþróunar. Leggjast þrír fjórðu hlutar á byggingarnar,  en fjórðungur á lóðirnar en jafnara hlutfall ætti að auka fjárfestingar að mati ráðsins.