Þegar breska ferðaskrifstofan Super Break ákvað að bjóða upp á sérstakar norðurljósaferðir beint til Akureyrar frá Bretlandi í janúar og febrúar næstkomandi stóð einungis til að bjóða upp á 8 brottfarir frá jafnmörgum flugvöllum í Bretlandi. Hins vegar hefur eftirspurnin verið það mikið að nú er búið að bæta við sex aukaferðum og þegar er uppselt í nokkrar þeirra að því er Túristi hefur eftir Chris Hagan hjá ferðaskrifstofunni.

Í heildina býður ferðaskrifstofan upp á sæti fyrir um 2.577 farþega í ferðunum fjórtan til íslands og segir Hagan að á næstunni verði tilkynnt um enn fleiri ferðir á bæði næsta og þarnæsta ári. Félagið hyggst jafnan bjóða heimamönnum fyrir norðan upp á flug beint frá Akureyri til Bretlands, en félagið notar ekki marga af þeim 11 flugvöllum sem nú þegar er flogið til Íslands frá á Bretlandseyjum.

Nálega uppselt frá sumum flugvöllum

Segir Hagan að mest hafi eftirspurnin verið eftir norðurljósaferðunum frá þeim flugvöllum sem ekki hafa nú þegar í boði áætlunarflug til Íslands. Sé til að mynda uppsellt eða mjög góð bókunarstaða í ferðir frá Humperside, Norwich, Bornemouth, Newcastle og Leeds.

Býst Hagan við að geta nálega tvöfaldað gistinætur útlendinga á hótelum á Norðurlandi, en hann býst við um 9 þúsund gistinóttum hér á landi frá þeim sem nýta sér ferðirnar. Í heildina voru gistinætur erlendra ferðamanna á norðlenskum hótelum hins vegar 10.451 í janúar og febrúar í ár.