Beint flug milli Egilsstaða og Lundúna hefst í lok maí á næsta ári. Þetta kemur fram á vef Austurfréttar.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefst flugið þann 28. maí og stendur til 24. september. Flogið verður á milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar í nágrenni Lundúna á miðvikudögum og laugardögum.

Flugið verður á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World og notast verður við 144 sæta Boeing 737-700 vélar í verkefninu.

Samkvæmt frétt Austurfréttar er mögulegt að flugið haldi áfram um veturinn, en það ráðist helst af því hvernig sumarið muni ganga.

Í mars skipaði forsætisráðherra nefnd til að skoða möguleika á millilandaflugi frá Egilsstöðum og Akureyri. Nefndin hefur ekki skilað af sér.