Flugfélag Íslands kannar nú möguleika á því að starfrækja flug á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar utan háannatíma. Þetta kemur fram á vefnum Túristi.is.

Síðustu þrjú ár hefur flugfélagið boðið upp á sumarflug á milli flugvallanna tveggja. Haft er eftir Árna Gunnarssyni framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands að það sé enn ekki komin endanleg niðurstaða í málið, en það sé til skoðunar. Einnig kemur fram í greininni að ef að Flugfélag Íslands myndi auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli, yrði það viðbót við núverandi markað á Reykjavíkurflugvelli.

Þetta myndi meðal annars auðvelda dreifingu ferðamanna milli landshluta . Einnig kæmi flugið til með að hjálpa þeim heimamönnum, sem búa fyrir norðan að geta flogið beint til Keflavíkur og haldið svo leiðar sinnar erlendis.

Haft er eftir Skapta Erni Ólafssyni, upplýsingafulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar að það væri tímaspursmál hvenær hlutirnir hefðu þróast í þessa átt. Norðurland væri komið á kortið sem ákjósanlegur ferðamannastaður og hann telur að það komi til með styrkja ferðamennsku þar ef flogið væri beint á milli Keflavíkur og Akureyar.